16 Nov Plast og skaðsemi þess í náttúrunni
Meira plast en fiskar árið 2050?
Það verður meira af plasti í hafinu en fiskar árið 2050 ef fólk hættir ekki að nota einnota plasthluti eins og plastpoka og plastflöskur. Fram á þetta hefur verið sýnt og greint frá í skýrslum Sameinuðu þjóðanna.
Nánar um hafverkefni Sameinuðu þjóðanna
Plast í náttúrunni verður sífelt meira vandamál með hverju árinu sem líður án talsverðra breytinga á neysluvenjum mannkynsins. Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið saman upplýsingar um plast í umhverfinu og skaðleg áhrif þess.
„Plastmengunar verður vart á ströndum Indónesíu, á hafsbotni við norðurskautið og í allri fæðukeðjunni. Plastmengunar verður jafnvel vart á matardiskunum okkar.“
Meira um plast á Grænn.is
Miðað við spár um þróunina má búast við að 99 prósent allra sjófugla hafi innbyrt plast um miðja þessa öld.
Mikið af því plasti sem fellur til frá heimilum okkar og er ekki flokkað endar í náttúrunni. Plast brotnar mjög hægt niður í náttúrunni og getur þess vegna haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið, plöntur og lífverur.
Við getum lagt okkar að mörkum til þess að spyrna við plastmengun í okkar umhverfi. Breytingarnar hefjast hjá okkur.
Hvað get ég gert?
- Forðumst að nota plastpoka undir vörur í verslunum og munum eftir fjölnota pokum þegar við verslum í matinn. Hægt er að kaupa fjölnota poka í öllum helstu matvöruverslunum.
- Sleppum „nískupokum“ undir ávexti og grænmeti. Það er óþarfi að vefja ávöxtum og grænmeti í sér poka í versluninni. Allir ávextir og nær allt grænmeti kemur í “náttúrulegum umbúðum” sem verja þær fyrir óhreinindum. Á ferðalaginu í verslunina hafa vörurnar legið í vöruhúsum og gámum. Skolum grænmetið og ávextina vel áður en við borðum.
- Flokkum plast frá öðru rusli. Plast er meðhöndlað á annan hátt en megnið af því sem við hendum í ruslið á heimilum okkar og á vinnustöðum. Það er þess vegna mikilvægt að flokka ruslið áður en það er sett í tunnuna, grenndargám eða á sorphirðustöðum.
- Plokkum upp draslið sem verður á vegi okkar, hvort sem það eru plastflöskur, nammibréf eða eitthvað annað og setjum á réttan stað.