Að uppvinna – hvað er það?

Að uppvinna er íslenska þýðingin á orðinu upcycle, einnig þekkt sem skapandi endurnýting (e. creative reuse). Þegar við uppvinnum þá búum við til eitthvað nýtt á skapandi hátt þannig að hlutirnir sem búnir eru til verða verðmeiri en hlutirnir sem fyrir eru – allavega í samanburði við það að framleiða og kaupa nýja.

Áður en við kaupum nýja hluti ættum við að hugsa um hvort við eigum einhverja svipaða hluti heima hjá okkur? Getum við hugsanlega búið hlutinn til úr einhverju sem við eigum nú þegar?

Að uppvinna er mótvægi við neysluhyggjuna, hvatning til fólks um að hugsa um nýjar og breyttar leiðir til að nota hluti og leysa vandamál, án þess að ganga á auðlindir náttúrunnar. Að byrja strax að uppvinna eitthvað þó smávægilegt sé er líka mikilvægt skref í átt að nýrri hugmyndaríkri hönnunarmenningu.

Orðið uppvinna (e. upcycle) er hugsað sem andstæðu þess að niðurvinna (e. downcycle), sem er í raun lýsing á hefðbundnu endurvinnsluferli (recycle). Við niðurvinnslu eru hlutir brotnir niður, t.d. glerflöskur, og nýir hlutir unnir upp úr þeim. Í það fer orka og oft næst ekki að endurnýta nema hluta. Niðurvinnsla vísar til þess að virði vörunnar sem búin er til verður minni en þeirrar sem var endurunnin og auðlindir tapast.

Höfum í huga að mikið af nýjum hlutum eru hannaðir til að nýtast stutt en endast samt lengi! Nánast hver einasti plasthlutur sem framleiddur hefur verið er til enn þá einhvers staðar! Það getur ekki gengið upp til lengdar. Við þurfum að nýta hlutina betur, aftur. Við verðum að uppvinna.