Græn skref fyrir heimilið og lítil fyrirtæki.
Tjékkaðu þig af – hvar er pláss fyrir bætingar?

Öll viljum við gera eins vel og við getum þegar kemur að umhverfismálum en oft getur verið erfitt að ákveða hvar eigi að byrja. Eftirfarandi listi tekur á nokkrum megin þáttum sem hjálpa til við að draga úr sóun og stíga græn skref í átt að umhverfisvænni lifnaðarháttum. Listann má nota hvort sem er inni á heimilum eða vinnustöðum. Hakaðu við alla þá þætti sem eiga við um þitt heimili eða vinnustað, því fleiri þætti sem hægt er að merkja við, því betra fyrir umhverfið.
Spurningalistinn er í samstarfi við verkefni Umhverfisstofnunar, Græn skref í ríkisrekstri.

 

Rafmagn og húshitun:

  • Við slökkvum á öllum ljósum í þeim rýmum sem eru ekki í notkun og öll ljós þegar við förum að sofa.
  • Við nýtum dagsbirtu yfir sumarmánuðina og erum meðvituð um að slökkva öll óþarfa ljós
  • Við veljum sparnaðarstillingu á uppþvotta- og þvottavélum, þekkjum skammtastærðir uppþvottaefnis og gangsetjum einungis fullhlaðnar vélar
  • Við endurnýjun eru ávallt valdar perur/lýsing með bestu orkunýtni s.s. LED
  • Við slökkvum á tölvum og skjám þegar slíkt er ekki í notkun
  • Við notum stiga frekar en lyftur þar sem það á við
  • Við höfum greint raf- og hitanotkun og sett okkur markmið í sparnaði og/eða bregðumst við breytingum

 

Flokkun og minni sóun:

  • Leiðbeiningar um flokkun eru sýnilegar öllu heimilisfólki. Öll ílát eru merkt með viðkomandi úrgangsflokki.
  • Við höfum ekki almennt sorp/ruslafötur í öllum herbergjum, allir nýta miðlæga flokkun
  • 60% eða meira af úrgangi er flokkaður til endurnotkunar eða endurvinnslu.
  • Við flokkum að lágmarki í sjö úrgangsflokka (t.d. spilliefni, pappír, plast, skilagjaldsumbúðir, bylgjupappa, málma, raftæki og gler)
  • Við erum meðvituð um matarsóun og gerum okkar ýtrasta til þess að minnka hana eins og mögulegt er
  • Við nýtum alla matarafganga og hugum að því við eldamennsku
  • Við borðum grænmetisrétti a.m.k. einu sinni í viku (t.d. meatless Mondays)
  • Við söfnum öllum lífrænum úrgangi og skilum eða jarðgerum
  • Við flokkum spilliefni eins og lög og reglur kveða á um, s.s. rafhlöður, prenthylki, málningarafganga, flúrperur og skilum til ábyrgrar förgunar
  • Við notum margnota burðarpoka í stað einnota við innkaup á smávöru
  • Við endurnýtum umbúðir s.s. innkaupapoka, kassa og annað sem fellur til við innkaup og notkun á vörum
  • Við reynum að nota ekki plastpoka til þess að flokka endurvinnanlegt efni og nota frekar lífbrjótanlega poka fyrir almennan og lífrænan úrgang
  • Við afþökkum allan fjölpóst
  • Við erum meðvituð um úrgangsmyndun heimilisins og hvar helst sé hægt að draga úr henni

 

Veislur og hittingar (afmæli, saumaklúbbar o.s.frv.):

  • Við notum margnota borðbúnað
  • Við reynum að sleppa einnota drykkjarumbúðum eins og hægt er, eða kaupum í stórum umbúðum
  • Við endurnýtum umbúða- og gjafapappír og gjafapoka og reynum að leita að umhverfisvænum aðferðum við að pakka inn gjöfum
  • Við leitumst við að gefa umhverfisvænar gjafir, svo sem upplifanir og samveru
  • Við skreytum ekki með einnota plasti svo sem blöðrum, borðum, dúkum og „confetti“
  • Við hugum að matarsóun við skipulag máltíða í veislum og öðrum hittingum

 

Samgöngur:

  • Við nýtum okkur umhverfisvænni ferðamáta til og frá vinnu eins og hægt er; hjól, strætó eða gangandi
  • Við samnýtum ferðir og skipuleggjum allan akstur til þess að takmarka auka akstur eins og hægt er
  • Við höfum kynnt okkur og tekið upp vistakstur
  • Við höfum kynnt okkur mismunandi orkugjafa bifreiða og áhrif þeirra

 

Innkaup:

  • Við leggjum áherslu á að versla vöruflokka sem eru vottaðir lífrænt ræktaðir og/eða siðgæðisvottaðir (Fair Trade) þegar það er í boði
  • Við kaupum einungis umhverfisvottaðan mjúkpappír (klósettog eldhúspappír) og sérvíettur eða notum fjölnota tau-sérvíettur þegar það er hægt
  • Að lágmarki 80% almennra hreinlætis- og ræstivara okkar eru umhverfisvottaðar
  • Við notum hleðslurafhlöður í stað einnota rafhlaða
  • Við íhugum vel þörfina áður en við kaupum inn t.d. hvort megi nýta betur, samnýta, fresta innkaupum eða gera við (nefna dæmi).
  • Við kaupum raftæki sem eru í A-flokki orkumerkinga eða hærra skv. orkuflokkum Evrópusambandsins.
  • Áður en húsgögn eru keypt er fyrst athugað hvort til séu notuð húsgögn í geymslu, hjá öðrum stofnunum/fyrirtækjum (minnum á hina ýmsu nytjamarkaði – t.d. á Facebook) eða Góða hirðinum. Næsta skref er að skoða ný húsgögn sem eru með umhverfisvottun s.s. Svaninn eða Blómið.
  • Við reynum að versla notaða hluti og föt þegar því verður við komið.
  • Við höfum kynnt okkur kolefnisfótspor heimilisins og erum meðvituð um neyslu okkar
  • Kaupum ekki vörur í smáumbúðum (vökva, sykur, tannstöngla, sælgæti)
  • Við ökum ekki um á nagladekkjum nema nauðsynlegt sé
  • Við fylgjumst með efnanotkun, vitum hver þeirra eru hættuleg og minnkum notkun þeirra
  • Við kaupum einungis umhverfisvottuð efni s.s. málningu, hreinsiefni og slíkt
  • Við notum ekki skordýraeitur
  • Við verslum við Kolvið, Votlendissjóð, eða aðra sambærilega sjóði eða nýtum okkur aðrar aðgerðir til kolefnisjöfnunar
  • Við erum meðvituð um árangur okkar í takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda og hvað má gera betur