Bíllinn og samgöngur

Samgöngur er ein af aðaluppsprettum losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi auk þess sem þær hafa áhrif á loftgæði. Við bruna á jarðefnaeldsneyti, og ekki síður við framleiðslu þess og flutning til landsins, losnar mikið af gróðurhúsalofttegundum.

Mengun vegna samgangna á Íslandi er mjög mikil miðað við höfðatölu enda notkun einkabílsins með því mesta sem gerist í heiminum. Þar sláum við þá nágranna okkar á Norðurlöndunum út með miklum mun þó veðráttan sé svipuð og meira að segja ívið mildari hér á veturna

Tilhneigingin undanfarin ár hefur verið að kaupa frekar stóra eldsneytiskrefjandi bíla og því er Ísland einnig hátt á lista yfir losun gróðurhúsalofttegunda á hvern ekinn kílómetra.

Hér er stórt tækifæri til umbóta og löngu tímabært að við snúum við blaðinu og sýnum í verki að við getum verið til fyrirmyndar í vistvænum samgöngum.

  • Ástundum virkar samgöngur. Göngum og hjólum því það er gott fyrir umhverfið, heilsuna og fjárhaginn.
  • Notum almenningssamgöngur þegar þær eru í boði. Skipulagðar ferðir hópbíla eru reglulegar víðast hvar á Íslandi. Auðvelt er að nálgast upplýsingar um ferðatíma og brottfarir á vefnum.
  • Veljum sparneytnari ökutæki og vistvænna eldsneyti. Verum meðvituð um eyðslu og mengun næst þegar við endurnýjum ökutæki heimilisins. Drægni rafbíla verður sífellt meiri og fjöldi rafhleðslustöðva eykst með hverju árinu sem líður.
  • Keyrum minna. Með því að skipuleggja ferðir heimilisins, nota aðra ferðamáta en bílinn og samnýta þær ferðir sem nauðsynlegar eru má draga töluvert úr eldsneytiseyðslu og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki vera bara úti að aka!
  • Gerum bílinn grænan. Gott viðhald bílsins og umgengni getur dregið verulega úr eldsneytisnotkun og gerir því aksturinn visthæfari.
  • Drepum á bílnum þegar við erum ekki að aka. Bílar í lausagangi menga mikið. Drepum á vélinni til þess að minnka eyðslu og losun gróðurhúsalofttegunda.

Heimild: Umhverfisstofnun

Hvað kostar ferðin?

Á vef Orkuseturs má reikna kostnað við ferðalög eftir gerð bíla og/eða skráningarnúmeri þeirra. Þar má jafnframt finna fleiri reiknivélar til þess að kanna mengunarflokk bíla, rekstrarkostnað og fleira.