NÁTTÚRUHREINSUN Á SUÐURLANDI

– BYRJENDAPAKKI

Umhverfis Suðurland er ekki aðeins hreinsunarátak á Suðurlandi, um sunnlenskar lendur, fjörur og fjöll, heldur líka stuðningur Sunnlendinga við hugarfarsbreytingu á heimsvísu, byltingu í umhverfisvernd og samfélagslegri ábyrgð.

HVAÐ ER PLOKK?

Plokk er sameining útivistar og umhverfisverndar. Sameining tveggja áhugamála sem styðja hvort annað og gera bæði betri. Um leið og ferðast er um náttúruna, ýmist skokkandi, hjólandi eða gangandi er rusl skipulega týnt á svæðinu eða það sem plokkarar í vígahuga kalla: að láta svæðið finna fyrir því! – af því plokk er á vissan hátt borgaraleg slagsmál við umhverfissóða og subbuleg svæði. Rusl er ekki bara tekið, það er handtekið!

 

Rusl er ekki bara tekið, það er handtekið!

HVAÐ ÞARF ÉG TIL AÐ BYRJA AÐ PLOKKA?

Þú þarft stóra poka undir rusl, helst auðvitað umhverfisvæna og marga til að geta flokkað ruslið. Plokkara (plokkstaf) eða plokktöng (ruslatöng) og góða hanska. Gott er að vera með sérstaka poka fyrir hættuleg efni eins og rafhlöður.

HVERNIG BYRJA ÉG AÐ PLOKKA?

Reyndu fyrst að finna þér plokkfélaga.

Plokk er félagsleg athöfn. Þú plokkar aldrei ein/n! Við plokkum alltaf saman. Jafnvel þó þú farir sem sólóplokkari þá skaltu deila plokkinu, myndum af svæðinu og afrakstrinum, með öðrum á samfélagsmiðlunum, öllum til ánægju og svo aðrir plokkarar viti hvar búið er að plokka og hvar ekki.

Veldu þér afmarkað svæði til að plokka, kannski nokkra kílómetra og fínkembdu svæðið af rusli. Best er að flokka ruslið og halda til dæmis plasti sér. Gott getur verið að safna ruslfengnum í einn bing eða fleiri og minnka þannig burð en hreyfa sig þeim mun meira.

Mundu að skila ruslinu á viðeigandi endurvinnslustöðvar.

ATHUGIÐ SÉRSTAKLEGA:

Fjöruplokk er einstaklega áhugavert á Suðurlandi en um leið þarf að passa að fara varlega. Engin ástæða er til að fara nálægt sjávarborðinu því rusl sem berst með öldum upp í fjörur sest yfirleitt ofarlega í fjörurnar.

Ef svo ólíklega vill til að einhver rekist á heimilisdýrahræ, vinsamlegast tilkynnið það til lögreglu. Finnist eigandinn verður hann þakklátur.