Pokastöðvar Umhverfis Suðurland

Pokastöðvar hafa sprottið upp um allt land undanfarin ár enda hefur vitundarvakning um plastnotkun og skaðleg áhrif þess á náttúruna verið mikil.

Pokastöðvar eru samfélagsverkefni sem snúa að því að mynda hringráð taupoka í samfélaginu. Verkefni Pokastöðvanna hófst á Hornafirði á vormánuðum 2016 en er í dag huti af alþjóðlegu samfélagsverkefni sem kallast Boomerang Bags og kemur frá Ástralíu.

Boomerang Bags er mjög lýsandi nafn því pokarnir fara út í heim með þeim sem nýta þá en skila sér svo aftur á pokastöðvar þar sem þær eru uppsettar og þaðan sem þeir halda svo hringferð sinni áfram.

Pokastöðvar ganga út á að safna gömlum stuttermabolum eða öðrum vefnaði í samfélaginu, hittast og sauma saman fjölnota poka og bjóða þá til láns í verslunum.

Hver sem er getur tekið þátt í Pokastöð og þarf enga saumahæfileika til. Klippa þarf ermar og hálsmál af bolum til að mynda haldföng, og loka botninum með því að sauma fyrir endann eða hnýta hann saman. Að lokum eru pokarnir merktir til þess að minna fólk á tilvist verkefnisins.

Hver sem er getur jafnframt stofnað Pokastöð fyrir sitt samfélag og hvetjum við áhugasama til þess að hafa samband við Umhverfis Suðurland ef frekari upplýsinga er óskað. Ef ekki er pokastöð í þínu samfélagi hvetjum við þig til þess að skoða málið betur.