Diskósúpufundur í Flóahreppi

Mánudagskvöldið 1. október hélt Atvinnu- og umhverfisnefnd Flóahrepps svokallaðan Diskósúpufund en hugmyndafræðin á bak við slíkan súpufund er sú að nýta það hráefni sem ekki selst hjá verslunum en er sannanlega neysluhæft, og elda úr því súpu. Hráefnið í súpuna fékkst hjá Krónunni og með því fékkst afgangsbrauð dagsins hjá Guðna Bakara og er nefndin þeim afar þakklát. Fundurinn var hugsaður til þess að kynna verkefnið Umhverfis Suðurland en verkefnið hefur það markmið að auka umhverfisvitund Sunnlendinga og er sérstök áhersla lögð á matarsóun í október. Á fundinum var Uppbyggingarsjóður Suðurlands jafnframt kynntur, auk þess sem gestir áttu gott, almennt spjall um atvinnu- og umhverfismál í Flóahreppi. Þess má jafnframt geta að það grænmeti sem ekki nýttist í súpugerðina var fært mötuneyti Flóaskóla til nýtingar.