Diskósúpa, hvað er það?

Fyrirbærið Diskósúpa kemur upphaflega frá ungliðahreyfingu Slow Food og gengur út á að búa til súpu úr þeim afgöngum sem verslanir og framleiðendur myndu annars henda. Slíkir viðburðir hafa verið haldnir út um allan heim og hafa það að markmiði að vekja fólk til meðvitundar um þá sóun sem á sér stað í fæðu-, framleiðslu- og sölukeðjunni.  ​

 

 

 

Uppskrift og aðferðarfræði Diskósúpunnar

Innihald

  • 40 kg grænmeti og annar matur sem á að henda úr búðum úr nágrenninu.
  • 40 lítri vatn (fer þó eftir áætluðum fjölda þeirra sem munu njóta súpunnar)
  • 1 stykki bíl og bílstjóra
  • 3 stykki frumkvæði
  • 4 símtöl og nokkrir tölvupóstar
  • Fullt af hamingju og góðri tónlist
  • Slatti af gleði
  • Skreytt með ánægju

Aðferð

Haft er samband við lagerstjóra í búðum og beðið um þeirra samstarf, taka til það sem á að fara í tunnuna einn dag og leyfa okkur að fá það.

Síðan er farið af stað og öllu safnað saman.

Hóið saman skemmtilegu fólki í stóru og góðu eldhúsi, skellið tónlist í tækið og hækkið vel í.

Síðan er skrælt og skorið, því sem er sannarlega ónýtt er hent, annað fer í stóra pottinn.

Allt soðið saman í góða stund, stundum er sniðugt að mauka súpuna, en stundum er hún fallegri með bitum.

Kryddað til með því sem við á, salti, pipar, kryddjurtum allt eftir því hvað er á boðstólum í eldhúsinu, smakkað og kannski einhverju bætt í viðbót.