Sunnlendingar eru tilbúnir í meiri flokkun sorps og líta á úrgang sem auðlind

Úrgangsmál voru í brennidepli á samráðfundunum um umhverfis- og auðlindamál sem haldnir voru s.l. haust á Suðurlandi, en það voru samtals sex fundir haldnir og vel á annað hundrað íbúar sem mættu og tóku þátt. Samráðsfundirnir voru áhersluverkefni á vegum Sóknaráætlunar Suðurlands og liður í mótun umhverfis- og auðlindastefnu fyrir landshlutann.

Úrgangsmál er málaflokkur sem tekur almennt til sorpmála og meðhöndlun sorps. Þessi málaflokkur er nokkuð þungur og umfangsmikill fyrir sveitarfélögin, íbúa og fyrirtæki á svæðinu. Í dag gera íbúar og fyrirtæki kröfu um að geta flokkað meira og samræmt en aukin vitund er um úrgangsmál og þau verðmæti sem liggja í úrgangi almennt. Sveitarfélög á Suðurlandi vinna ekki öll eins þegar kemur að úrgangsmálum og má segja að það sé unnuð að þessum málum á fimm ólíka vegu eftir svæðum innan landshlutarins. Flest sveitarfélög eru farin að flokka í 2-3 tunnur og sum þeirra komin lengra en það. Sum sveitarfélög á Suðurlandi eru enn að urða allt of mikið af úrgangi og flokka of lítið og önnur sveitarfélög eru tilneydd til að flytja sorp út til eyðingar, urðunar eða brennslu þar sem engin urðunarstaður né brennsla er á svæðinu. Þetta er grafalvarleg staða og eru sunnlendingar á ákveðnum tímamótum hvað þessi mál varðar. Fyrir liggur að stjórnvöld á Íslandi hafa ákveðið að taka upp og innleiða frá Evrópusambandinu hringrásarhagkerfi úrgangs. Á ársfundir Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) í október 2018 var samþykkt að fara af stað í verkefni á Suðurlandi sem ber heitið Úrgangsmál og meðferð úrgangs á Suðurlandi. Verkefnið er unnuð sem áhersluverkefni á vegum Sóknaráætlunar Suðurlands og hefur Elísabet Björney Lárusdóttir umhverfisfræðingur verið ráðin sem verkefnastjóri með sérfræðiþekkingu. Verkefnið er á byrjunarreit og verður unnið í nánu samstarfi við Sorpstöð Suðurlands sem hefur nýverið látið vinna ítarlega skýrslu sem ber heitið Valkostir í söfnun og meðhöndlun úrgangs frá sveitarfélögum á Suðurlandi en skýrslan var unnin af Stefáni Gíslasyni hjá Environice. Sunnlendingar eru tilbúnir í vinnuna og eru sammála um að líta þarf á úrgang sem auðlind, saman erum við sunnlendingar sterkari og umhverfisvænni.