REKO, hvað er það?

 

Hugmyndafræði REKO gengur út á það að efla „nærsamfélagsneyslu“ og færa framleiðendur og neytendur nær hver öðrum, gera matarhandverki/heimavinnslu hærra undir höfði og færa smáframleiðendur ofar í virðiskeðjuna.
REKO er eingöngu á Facebook og er markmiðið að gefa neytendum/veitingamönnum og bændum/heimavinnsluaðilum/smáframleiðendum innan ákveðins svæðis tækifæri til að stunda milliliðalaus viðskipti.

MatarAuður hefur haft veg og vanda að því að koma á REKO hópum um allt land en svo er það í höndum hvers svæðis að halda þeim gangandi, standa fyrir viðburðum og kynna vörur.

Búið er að stofna REKO Suðurland og nú búið að halda tvær afhendingar sem gengu vonum framar. Fyrsta vöruafhendingin var haldin þann 15.desember síðast liðinn og leikurinn svo endurtekinn þann 19.janúar með enn meiri þátttöku.

Einnig er búið að stofna REKO Hornafjörður sem fyrirhugar afhendingu fljótlega, en með þessum tveimur hópum er búið að útfæra REKO fyrir allt Suðurland og ekkert því til fyrirstöðu að allir sem áhuga hafa, geti keypt matvörur beint frá sunnlenskum framleiðendum.

Við hvetjum alla til þess að kynna sér frekar hugmyndafræði REKO og í framhaldi taka þátt í að styðja við nærsamfélags framleiðslu og neyslu.