Norræni skiptidagurinn

Norræni skiptidagurinn (e. Nordic swap day) er haldin hátíðlegur nú á laugardaginn, 6. apríl.
Viðburðurinn rekur uppruna sinn til Svíþjóðar árið 2010 en hefur auk þess verið haldinn víða um Danmörku, Noreg og Finnland. Í fyrra tók Ísland í fyrsta sinn þátt í þessum degi en þá hélt Hitt húsið fataskiptimarkað en nú hafa verið skipulagðir þrír viðburðir um landið vegna Norræna skiptidagsins, í Hafnarfirði, Reykjavík og Akureyri.

Fatskiptimarkaðir ganga út á að fólk mætir með heilar og hreinar flíkur sem ekki eru í notkun og finnur önnur föt sem henta betur í staðinn. Allir megataka úr flíkur á fataskiptimörkuðum hvort sem viðkomandi leggur inn eða ekki, hugmyndin er að gefa verðmætum lengra líf.

Allir geta staðið fyrir Fataskiptimörkuðum!
Eftirfarandi atriði er gott að hafa í huga:

  • Fá aðgang að opnu rými þar sem hægt er að bjóða fólk velkomið
  • Gott er að hafa borð, hillur, fataslár eða snaga svo hægt sé að dreifa vel úr fötunum
  • Hvenær má fólk mæta með fötin, gott að hafa mætingu áður en markaðurinn byrjar
  • Auglýsa viðburðinn vel – við getum hjálpað við það!
  • Sjálfboðaliði þarf að vera á staðnum til að leiðbeina gestum allan tíman
  • Gott er að flokka föt eftir aldri/stærðum
  • Öll föt þurfa að vera hrein og nothæf
  • Allir eru velkomnir að taka þátt með því að leggja inn eða taka úr föt
  • Þátttaka er ókeypis
  • Ef afgangur verður af fötunum er gott að geyma þau fyrir næsta fataskiptimarkað eða gefa t.d. í Rauða krossinn

 

Neysluvandamálið snertir okkur öll og þurfum við að leita leiða til að koma betur fram við náttúruna.
Fatasóun er gríðarleg í hinum vestræna heimi en nú á sér stað mikil vitundarvakning um umhverfismál og Fataskipti orðin vinsæl leið til að nýta auðlindir betur.
Fyrsta skrefið er að breyta kauphegðun okkar og draga úr neyslu á nýjum vörum.
Einnig er tilvalið að taka til í fataskápnum og koma klæðum sem passa ekki eða eru af öðrum ástæðum ekki í notkun aftur í umferð!

 

Ef þú vilt halda skiptimarkað á Suðurlandi í tilefni dagsins hafðu endilega samband við Umhverfis Suðurland og við aðstoðum að koma honum á framfæri.