Norræni fataskiptimarkaðurinn á Suðurlandi

Árlega er Norræni fataskiptimarkaðurinn (e. Nordic Swap Day) haldinn um öll Norðurlöndin til að draga úr fatasóun og um leið að veita umhverfisvæna leið til að losa sig við heilar og góðar flíkur sem eru ekki í notkun og hugsanlega að finna sér aðrar nýjar til að taka með sér heim. Viðburðurinn rekur uppruna sinn til Svíþjóðar þar sem hann var í fyrsta sinn haldinn árið 2010 og hefur síðan þá fengið góða útbreiðslu um Norðurlöndin og er núna haldinn í annað sinn á Íslandi.

Fatasóun er risastórt umhverfisvandamál því framleiðsla fatnaðar er auðlindafrek og mengandi, meira má lesa um vandamál og lausnir skynditísku og umhverfismála undir FRÆÐSLA á síðunni.

Í ár var dagurinn haldinn laugardaginn 6. apríl og voru  fjórir staðir sem buðu upp á aðstöðu til skiptimarkaðarins. Þeir voru í Reykjavík, Hafnarfirði, Akureyri og í grunnskólanum á Laugarvatni.

Viðburðurinn á Laugarvatni var eini viðburðurinn á Suðurlandi sem haldinn var í tilefni dagsins og gekk hann vonum framar. Vonandi er því hér um að ræða atburð sem verður tekinn upp í fleiri sveitarfélögum á Suðurlandi á næsta ári, og jafnvel oftar, því ef fatamarkaðurinn á Laugarvatni sýnir einhverja mynd af venjulegu heimili á Suðurlandi þá er af nógu að taka.

Fyrirkomulag markaðarins var þannig að hver sem vildi mátti mæta með heil föt, sem voru hætt í notkun á því heimili. Hér var því ekki verið að óska eftir götóttu sokkunum eða slitnu bolunum. Þetta var markaður fullur af frekar nýlegum og vel með förnum fötum sem heimilismeðlimir voru vaxnir upp úr eða hentuðu af einhverjum ástæðum ekki lengur.

Alls mættu 12 fjölskyldur með riflega 57 kg af fatnaði. Alls voru tekin rúmlega 22 kg af fatnaði þannig að eftir stóð um 35 kg. Þessi föt eru m.a. heilir pollagallar, útivistafatnaður, gallabuxur, bolir, kjólar o.s.frv. fatnaðurinn var svo vel með farinn að ákveðið var að halda annan markað og hafa betri auglýsingu á fleiri tungumálum og auglýsa víðar til að koma þessum fötum á góða staði áður en þeim verður komið fyrir í hjálparstofnun.

Í stað þess að setja dýrmæt efni í urðun eða brennslu er þeim gefið framhaldslíf hjá öðrum sem geta nýtt og kunna að meta fatnaðinn, það er hluti af auðlindahringrásinni sem við þurfum öll að stefna að.

Meira má lesa um þetta ferli hér.