Loftlagsbreytingar

Frá upphafi iðnbyltingarinnar, seint á 18. öld, hefur mannkynið haft veruleg áhrif á loftslag jarðar, einkum með losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Notkun jarðefnaeldsneytis hefur margfaldast síðan þá. Aukning í ákveðnum lofttegundum breytir varmageislun frá jörðinni þannig að neðri hluti lofthjúpsins og yfirborð jarðar hlýna. Eðli gróðurhúsalofttegunda og áhrif þeirra hefur verið þekkt í áratugi og telja vísindamenn að hlýnunin frá iðnbyltingu hafi verið allt að 10 sinnum hraðari en að jafnaði á fyrri hlýskeiðum og hraði hlýnunarinnar virðist enn fara vaxandi.

Á síðustu 100 árum nemur hlýnun loftslags að meðaltali um 0,8°C við yfirborð jarðar, en er mun meiri á norðlægum slóðum. Frá því að samfelldar mælingar hófust á Íslandi fyrir miðbik 19. aldar hefur hlýnað verulega á landinu og nemur hlýnunin um 0,8 °C á öld. Síðustu áratugi hefur hlýnun verið mjög áköf og frá 1980–2015 nam hún 0,5°C á áratug, mest vestan og norðvestan til á landinu. Innan við ein gráða á Celcius virðist ekki há tala, en þar sem um vik frá meðalárshita er að ræða eru áhrifin víðtæk og birtast m.a. í bráðnun hafíss og jökla, hækkun sjávarborðs, lengri vaxtartíma gróðurs og breytingum á farháttum dýra.

Ástæða þessarar hröðu hlýnunar er fyrst og fremst aukinn styrkur koltvísýrings (CO2) og fleiri gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Aukningin er af mannavöldum og stafar einkum af bruna á kolum og olíu til raforkuframleiðslu, í samgöngum og iðnaði, minni bindingu koltvísýrings vegna gróðureyðingar og losun metans í landbúnaði. Ljóst er að aukin losun gróðurhúsalofttegunda raskar því jafnvægi sem áður var til staðar. Meðan losunin er ekki takmörkuð með einhverjum hætti, eða binding aukin, mun magn þessara lofttegunda í lofthjúpnum halda áfram að aukast og hitastig hækkar að sama skapi. IPCC gaf úr skýrslu 2018 þar sem lýst er hræðilegri stöðu líf alls á jörð og að nú höfum við um 10 ár til að koma í veg fyrir að hitastig jarðar hækki um 1,5°C sem mun hafa óafturkræfar afleiðingar.

Meira má lesa um loftlagsbreytingar og gróðurhúsalofttegundir hér.

Við hvetjum alla til að kynna sér ástæður og afleiðingar loftlagsbreytinga á jörðina alla.

Þekking er okkar beittasta vopn!