Hátíðarhöld á sumarmánuðum

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur fyrir stuttu, nú styttist í 17. júní með allri sinni gleði og flestir bæir halda einnig einhverskonar bæjarhátíðir yfir sumarmánuðina

Auk þess halda einstaklingar og fjölskyldur gjarnan veislur, ættarmót og aðrar samkomur á þessum bjartasta tíma ársins.

Það er að mörgu að huga við skipulag þessara hátíða og fjölbreyttar þarfir og væntingar sem þarf að uppfylla.

Umhverfis Suðurland hvetur sunnlendinga til að huga að umhverfismálum við skipulagningu viðburða sumarsins hvort sem er innan heimilisins eða á stærri skala.

Mikilvægt er að úrgangsmeðhöndlun sé tryggð og flokkun í boði. Oft er boðið uppá einhverskonar matvæli og því til fyrirmyndar að bjóða einnig uppá lífræna flokkun.

Lífræn flokkun takmarkar það rusl sem fer til urðunar og gasmyndun sökum þess.

Einnig viljum við hvetja sveitarfélög og skipuleggjendur hátíða til að nota ekki einnota vörur þar sem hægt er og sleppa alveg einnota plasti.

Blöðrur hafa lengi verið gleðigjafi á sumarhátíðum en blöðrur eru úr einnota plasti og því mikilvægt að hugsa sig tvisvar um áður en þær eru keyptar.