Framtíð skynditísku / Hringrásarhagkerfið

Frá línulegu kerfi yfir í hringrásarkerfi

Ýmsar breytingar eru framundan, meðal annars innleiðing á Sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna sem tekur á bæði umhverfis- og samfélagslegu þáttum fataframleiðslu og innan Evrópu er hafin innleiðing Hringrásahagkerfis, þar sem lögð verður áhersla á að skylda söfnun á efnavöru við uppruna. Það þýðir að heimili, fyrirtæki og aðrir eiga að flokka þessi efni eins og við flokkum pappír og plast í dag og bann verður lagt á að setja þau í jörðu. Þessi skylda verður sett á sveitarfélög árið 2025 í síðasta lagi og því mikilvægt fyrir sveitarfélög á Íslandi að vera meðvituð um þessa breytingu í reglugerð og byrja að undirbúa sig.

Hringrásarhagkerfið er breyting frá línulega kerfinu sem við búum að miklu leyti við í dag. Í stað þess að leyfa dýrmætum efnivið að fara í jörðu eða í brennslu eru þessi efni gripin áður og sett á ný inn í hringrásina sem nýr efniviður.

Hringrásartíska er þáttur í þessu kerfi þar sem í stað þess að versla einnota flíkur sem fara í urðun eða brennslu eru keyptar vandaðri flíkur sem endast lengur en eitt tískutímabil. Eins eru lausnir eins og skiptifatamarkaðir og aðrir sambærilegir markaðir mikilvægir liðir í þessu kerfi.

Á þessari mynd má sjá hringrásarkerfi í hnotskurn, þar sem unnið er með úrgangsforvarnir með því að skila vörum, gefa þær eða selja þegar við höfum ekki lengur þörf fyrir þær. Vörur eru hannaðar þannig að þær séu auðveldar í sundurliðun, þannig að endurvinnsla verður öll mun einfaldari og árangursríkari og hráefnið sem fæst úr endurvinnslunni er sett í nýjar vörur sem endurunnið hráefni.

Hvernig förum við frá skynditísku yfir í hringrásartísku

Við getum orðið meðvituð um hvað við erum raunverulega að kaupa í hvert sinn sem við kaupum eitthvað ódýrt og lesið okkur til um samfélagslegu og umhverfislegu áhrif neyslunnar okkar. Þekking er það sem mun hafa mestu áhrif á neysluna okkar. Við getum orðið betur meðvituð um að tíska er ákveðið af einhverjum örfáum einstaklingum sem hagnast á hversu auðvelt er að hafa áhrif á neyslu okkar og þannig tekið ákvörðun um að hætta að taka þátt í þessu tilbúna kerfi sem þjónar ekki hagsmunum náttúrunnar eða þeirra sem minna mega sín.

Í stað skynditískunnar getum við valið að versla hringrásartísku, þ.e. við getum valið að versla vandaðri flíkur sem endast meiri en eina önn, við getum valið að notfæra okkur fataskiptamarkaði eða kaupa notað. Allt sem við gerum til að draga úr sóun skiptir miklu máli og saman getum við breytt þessu kerfi þannig að það stuðli að betri auðlindanýtingu og samfélagslegri uppbyggingu og þannig stýrt heiminum í átt að sjálfbærari heimi.