Áhrif skynditísku

Talið er að tískuiðnaðurinn beri ábyrgð á 20% af öllu fráveituvatni, 10% losun gróðurhúsalofttegunda og gríðarlegs magns af efnivið sem fer í urðun á heimsvísu. Á hverri sekúndu er álíka magn og úr einum sorpbíl af efnavöru sett ofan í jörðu eða í brennslu. Árlega er um 85% af allri efnavöru send í urðun, sem samsvarar 21 milljarður tonna á ári.

Og til að bæta gráu ofan á svart þá er um 60% af öllu efni sem notað er í fatnað gert úr plasti. Þá er um að ræða efni eins og polyester, akrýl og nælon. Þetta eru efni sem losa örplast við þvott sem skilar sér út í vötnin okkar og sjó. Talið er að um hálf miljón tonna örplasts skolist út á haf við heimilisþvott árlega, sem veldur hörmungum í vistkerfi sjávar og berst upp í fæðukeðju okkar. Sýnt hefur verið fram á að við neytum plast reglulega, en ekki er vitað um beinar afleiðingar þess ennþá. Hér er því um mikla áhættu að ræða sem við erum að taka vegna ofstækisfullrar neyslu okkar.

Þetta voru umhverfisáhrifin, en samfélagslegu áhrifin eru ekki síður mikilvæg. Talið er að 1 af 6 manneskjum í heiminum vinni við tískutengd störf og að 80% þessara manneskja séu konur frá þriðja heims löndum sem eru nauðbeygðar til að stunda störfin sín2. Þegar krafa um lækkað verð á fatnaði berst framleiðslunni hefur framleiðandinn oft ekki annað val en að draga saman kostnað með einhverjum hætti þar sem nægilegt framboð er af fátæku fólki sem vill vinna. Kostnaðurinn við ódýra bolinn sem við neytendur í Vestri njótum góðs af, leggst því á fátæku konuna í Bangladesh sem er nauðbeygð til að þjóna okkur svo hún geti átt pening fyrir mat handa börnunum sínum. Þessi hugsun er kannski ekki ofarlega í huga okkar þegar við verslum flíkur en er samt órjúfanlegur hluti keðjunnar og ætti að vera fyrir augum okkar í hvert sinn sem við veljum að kaupa ódýra flík.

Tags: