Jörðinni má á ýmsan hátt líkja við gróðurhús. Lofthjúpur jarðar gegnir svipuðu hlutverki og glerið í gróðurhúsinu. Hann hleypir greiðlega í gegnum sig sýnilegri sólargeislun og heldur inni miklum hluta varmageislunarinnar sem berst frá yfirborði jarðar. Þannig dregur lofthjúpurinn úr varmatapi frá jörðinni. Þessi áhrif lofthjúpsins á hitastig og loftslag á jörðinni eru nefnd gróðurhúsaáhrif. Án gróðurhúsaáhrifa væri meðalhitastig á jörðinni í kringum -19°C í stað +14°C, eins og það er nú. Gróðurhúsaáhrifin eru þannig forsenda fyrir lífi á jörðinni í núverandi mynd.
Aukin gróðurhúsaáhrif valda hnattrænni hlýnun og loftslagsbreytingum. Afleiðingar loftslagsbreytinga á jörðinni eru meðal annars þær að gróðurbelti færast til, breytingar verða á úrkomumynstri, yfirborð sjávar hækkar og flóðahætta eykst á ýmsum frjósömum og þéttbýlum svæðum. Auk þess kunna að verða breytingar á lífsskilyrðum í sjó vegna breytinga á straumum, sýrustigi og seltu. Óvíst er hvaða afleiðingar þetta mun hafa fyrir mannkynið, en að líkindum munu loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra auka mjög á vandann sem nú þegar steðjar að mannkyninu vegna mikillar fjölgunar jarðarbúa.
Hve mikil hnattræn hlýnun af mannavöldum verður og alvarleiki afleiðinga af loftlagsbreytingum ræðst að miklu leyti af þróun í útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Því þurfum við að taka höndum saman um að draga úr losuninni eins og hægt er.
Áhrif af losun og uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu eru hnattræn og koma því öllum við. Yfirvofandi loftslagsbreytingar af þessum völdum er eitt mest aðkallandi umhverfismál samtímans og eiga yfirvöld verðugt verkefni fyrir höndum að finna leiðir til að stýra þróun samfélagsins í sjálfbærari farveg. Öll getum við lagt okkar af mörkum til að minnka álagið á umhverfið og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Lausnirnar eru til staðar, bæði framkvæmanlegar og hagkvæmar. Með tiltölulega einföldum breytingum á daglegum venjum getum við sjálf dregið umtalsvert úr neikvæðum áhrifum okkar á umhverfið.
Á Íslandi höfum við þá sérstöðu að rafmagnsframleiðslu og orkunotkun til húshitunar eru umhverfisvænar og losa tiltölulega lítið magn af gróðurhúsalofttegundum. Aftur á móti eru samgöngur hér nær eingöngu knúnar með brennslu jarðefnaeldsneytis og skapa stóran hluta (20%) þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem verður á Íslandi. Innkaup á vörum og neysla eru líklega sá hluti heimilishaldsins, fyrir utan samgöngurnar, sem veldur hvað mestri losun gróðurhúsalofttegunda. Og þá sérstaklega ef tekin er með í reikninginn sú losun sem verður í framleiðslulandinu og við flutninga til Íslands. Að þessum þætti ættum við Íslendingar að huga sérstaklega að þar sem mjög stór hluti þeirra vara sem við neytum er innfluttur.
Heimild: Umhverfisstofnun