Loftslagsbreytingar

Breytingar á loftslagi jarðar og áhrif þeirra á athafnir og líf mannkynsins er eitthvað stærsta viðfangsefni okkar um þessar mundir. Viðurkennt er að vegna athafna mannsins á jörðinni hefur losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið aukist mikið með þeim afleiðingum að hitastig á jörðinni hækkar.

Afleiðingar hærra hitastigs eru margvíslegar. Allar hafa þær það sammerkt að þvinga mannkynið til breyttra lífshátta og venja. Það er undir hverjum og einum komið að taka skrefið til breyttra venja.

Breyttar venjur þurfa hins vegar ekki að draga úr lífsgæðum. Tækninýjungar munu hjálpa til við að dragar úr losun gróðurhúsalofttegunda en það eitt og sér skilar okkur ekki alla leið.

Hér að neðan má finna upplýsingar frá Umhverfisstofnun um hvernig einstaklingar geta lagt sitt að mörkum.

Jörðinni má á ýmsan hátt líkja við gróðurhús. Lofthjúpur jarðar gegnir svipuðu hlutverki og glerið í gróðurhúsinu. Hann hleypir greiðlega í gegnum sig sýnilegri sólargeislun og heldur inni miklum hluta varmageislunarinnar sem berst frá yfirborði jarðar. Þannig dregur lofthjúpurinn úr varmatapi frá jörðinni. Þessi áhrif lofthjúpsins á hitastig og loftslag á jörðinni eru nefnd gróðurhúsaáhrif. Án gróðurhúsaáhrifa væri meðalhitastig á jörðinni í kringum -19°C í stað +14°C, eins og það er nú. Gróðurhúsaáhrifin eru þannig forsenda fyrir lífi á jörðinni í núverandi mynd.

Aukin gróðurhúsaáhrif valda hnattrænni hlýnun og loftslagsbreytingum. Afleiðingar loftslagsbreytinga á jörðinni eru meðal annars þær að gróðurbelti færast til, breytingar verða á úrkomumynstri, yfirborð sjávar hækkar og flóðahætta eykst á ýmsum frjósömum og þéttbýlum svæðum. Auk þess kunna að verða breytingar á lífsskilyrðum í sjó vegna breytinga á straumum, sýrustigi og seltu. Óvíst er hvaða afleiðingar þetta mun hafa fyrir mannkynið, en að líkindum munu loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra auka mjög á vandann sem nú þegar steðjar að mannkyninu vegna mikillar fjölgunar jarðarbúa.

Hve mikil hnattræn hlýnun af mannavöldum verður og alvarleiki afleiðinga af loftlagsbreytingum ræðst að miklu leyti af þróun í útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Því þurfum við að taka höndum saman um að draga úr losuninni eins og hægt er.

Áhrif af losun og uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu eru hnattræn og koma því öllum við. Yfirvofandi loftslagsbreytingar af þessum völdum er eitt mest aðkallandi umhverfismál samtímans og eiga yfirvöld verðugt verkefni fyrir höndum að finna leiðir til að stýra þróun samfélagsins í sjálfbærari farveg. Öll getum við lagt okkar af mörkum til að minnka álagið á umhverfið og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Lausnirnar eru til staðar, bæði framkvæmanlegar og hagkvæmar. Með tiltölulega einföldum breytingum á daglegum venjum getum við sjálf dregið umtalsvert úr neikvæðum áhrifum okkar á umhverfið.

Á Íslandi höfum við þá sérstöðu að rafmagnsframleiðslu og orkunotkun til húshitunar eru umhverfisvænar og losa tiltölulega lítið magn af gróðurhúsalofttegundum. Aftur á móti eru samgöngur hér nær eingöngu knúnar með brennslu jarðefnaeldsneytis og skapa stóran hluta (20%) þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem verður á Íslandi. Innkaup á vörum og neysla eru líklega sá hluti heimilishaldsins, fyrir utan samgöngurnar, sem veldur hvað mestri losun gróðurhúsalofttegunda. Og þá sérstaklega ef tekin er með í reikninginn sú losun sem verður í framleiðslulandinu og við flutninga til Íslands. Að þessum þætti ættum við Íslendingar að huga sérstaklega að þar sem mjög stór hluti þeirra vara sem við neytum er innfluttur.

Heimild: Umhverfisstofnun

Þjóðir heims, Ísland þar á meðal, hafa skuldbundið sig til að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt Kýótó-bókuninni. Aðgerðaáætlun miðar að því að á árunum 2008 til 2012 skuli árleg losun á Íslandi ekki vera meira en 10% hærri en árið 1990 (að undanskilinni losun sem fellur undir íslenska ákvæðið) og að árið 2050 hafi verið dregið úr losun um 50-75% miðað við árið 1990. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hefur aukist um 43% milli áranna 1990 og 2008, en með því að nýta undanþáguákvæði vegna iðnaðaruppbyggingar (íslenska ákvæðið – setja tengingu) reiknast aukningin um 10%.

Innflutningur á orku eins og olíu eykur útstreymi gjaldeyris og hefur neikvæð áhrif á vöruskiptajöfnuð landsins. Á undanförnum árum hefur olíuverð hækkað ört og flest bendir til þess að það eigi enn eftir að hækka á komandi árum. Það sparast því mikið fé ef unnt er að nýta innlenda orkugjafa í meira mæli og nýta orkuna í jarðefnaeldsneyti betur. Þannig má draga úr olíuinnkaupunum. Það er þess vegna allra hagur að spara orku hvort heldur sem hún er innlend eða innflutt. Meðalheimili á Íslandi eyðir árlega í kringum 300-600 þúsund krónum í orkukaup. Með auðveldum hætti má draga verulega úr þessum kostnaði með því að spara orku í formi hita, rafmagns og olíu. Gróðurhúsaáhrifin eru hnattræn mengun og því skiptir máli að draga úr þeim hvar sem hægt er. Ísland hefur tækifæri og náttúrulegt forskot til að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum, en þá þurfum að söðla um í samgöngumálum.

Þó að við búum svo vel hér á landi að eiga nægar orkulindir í fallvötnum og jarðhita er ekki þar með sagt að þær séu óþrjótandi og eilífar. Með því að nýta sem best innlenda orku fáum við meira út úr þeim fjárfestingum sem liggja í orkumannvirkjum landsins en slíkar fjárfestingar auka á skuldir þjóðarinnar auk þess sem meira þarf af útflutningstekjunum til að borga þær. Því betur sem við nýtum þessar auðlindir því meiri verður arðurinn af þeim. Auk þess eykur skynsöm notkun endingartíma raftækja og -vara sem aftur dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna nýrrar framleiðslu og flutnings. Virkjum inn á við!

Bifreiðaeign landsmanna árið 2012 var rúmlega 300.000 bílar og hefur nærri tvöfaldast frá árinu 1995.

Fjöldi fólksbifreiða á Íslandi á hverja 1000 íbúa er með því hæsta sem gerist í heiminum og hefur meira en tvöfaldast síðustu 30 árin.

Ferð með flugi til Kaupmannahafnar fram og til baka veldur um 860 kg útblæstri af CO2 á hvern farþega.

Kárahnjúkavirkjun getur framleitt nægt rafmagn fyrir 50 milljónir sparpera sem loga myndu allan sólarhringinn.

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi jókst um 30% á tímabilinu 1990 til 2010.

Hverju togveiddu kg af þorski fylgir tæplega 2 kg útblástur af CO2.

Íslendingar eiga heimsmet í álframleiðslu á íbúa. Við framleiðslu á 1 tonni af áli myndast um 1,7 tonn af gróðurhúsalofttegundum. Þá er miðað við að orkan komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Komi orkan frá jarðgasi losna um 9,5 tonn af gróðurhúsalofttegundum á hvert framleitt áltonn.

Gróður bindur CO2 í andrúmsloftinu og draga þar af leiðandi úr styrk gróðurhúsaloftegunda. Á vefsíðunni www.kolvidur.is má finna hve mörg tré þarf að gróðursetja til að kolefnisjafna þinn ársakstur.

Heimild: Umhverfisstofnun

Heimilishald á Íslandi er frekar umhverfisvænt þökk sé góðum aðgangi að hreinu vatni, jarðvarmahitaveitu og endurnýjanlegum auðlindum til rafmagnsframleiðslu. En þó að við séum svo heppin að hafa aðgang að hreinum auðlindum þurfum við að vernda þær, tryggja sjálfbæra nýtingu og bera virðingu fyrir þeim. Vatnsafls- og jarðvarma virkjanir og raf- og hitaveitur hafa í för með sér bæði kostnað og umhverfisáhrif vegna framkvæmda og reksturs og er mikill óþarfi að sóa verðmætum auðlindum. Með tiltölulega einföldum aðgerðum til að bæta orkunýtingu heimilanna hefur verið áætlað að spara megi orku sem samsvarar framleiðslu 40MW vatnsaflsvirkjunar á ári, sem er um það bil jafnmikið og afl Ljósafoss- og Steingrímsstöðvar í Soginu til samans.

Innkaup á neysluvörum eru aftur á móti líklega sá þáttur heimilishaldsins sem hefur hvað mest gróðurhúsaáhrif. Vegna legu landsins, fámennis og veðurfars eru flestar vörur sem við neytum framleiddar erlendis og fluttar langar leiðir. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna þessa teljast ekki með í losunarbókhaldi Íslands vegna loftslagssamningsins en áhrifin eru hnattræn og á okkar ábyrgð samt sem áður. Breytum neyslumynstrinu úr því einstreymisferli hráefna í ruslahauginn sem hefur tíðkast of lengi og nýtum verðmætin betur. Drögum úr óþarfa neyslu, endurnýtum og endurvinnum!

Munum forgangsröðina: Nota minna, endurnota, endurvinna!

 

 

Heimild: Umhverfisstofnun

Samgöngur er ein af aðaluppsprettum losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi auk þess sem þær hafa áhrif á loftgæði. Við bruna á jarðefnaeldsneyti, og ekki síður við framleiðslu þess og flutning til landsins, losnar mikið af gróðurhúsalofttegundum.

Mengun vegna samgangna á Íslandi er mjög mikil miðað við höfðatölu enda notkun einkabílsins með því mesta sem gerist í heiminum. Þar sláum við þá nágranna okkar á Norðurlöndunum út með miklum mun þó veðráttan sé svipuð og meira að segja ívið mildari hér á veturna

Tilhneigingin undanfarin ár hefur verið að kaupa frekar stóra eldsneytiskrefjandi bíla og því er Ísland einnig hátt á lista yfir losun gróðurhúsalofttegunda á hvern ekinn kílómetra.

Hér er stórt tækifæri til umbóta og löngu tímabært að við snúum við blaðinu og sýnum í verki að við getum verið til fyrirmyndar í vistvænum samgöngum.

  • Ástundum virkar samgöngur. Göngum og hjólum því það er gott fyrir umhverfið, heilsuna og fjárhaginn.
  • Notum almenningssamgöngur þegar þær eru í boði. Skipulagðar ferðir hópbíla eru reglulegar víðast hvar á Íslandi. Auðvelt er að nálgast upplýsingar um ferðatíma og brottfarir á vefnum.
  • Veljum sparneytnari ökutæki og vistvænna eldsneyti. Verum meðvituð um eyðslu og mengun næst þegar við endurnýjum ökutæki heimilisins. Drægni rafbíla verður sífellt meiri og fjöldi rafhleðslustöðva eykst með hverju árinu sem líður.
  • Keyrum minna. Með því að skipuleggja ferðir heimilisins, nota aðra ferðamáta en bílinn og samnýta þær ferðir sem nauðsynlegar eru má draga töluvert úr eldsneytiseyðslu og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki vera bara úti að aka!
  • Gerum bílinn grænan. Gott viðhald bílsins og umgengni getur dregið verulega úr eldsneytisnotkun og gerir því aksturinn visthæfari.
  • Drepum á bílnum þegar við erum ekki að aka. Bílar í lausagangi menga mikið. Drepum á vélinni til þess að minnka eyðslu og losun gróðurhúsalofttegunda.

Heimild: Umhverfisstofnun

Á vef Orkuseturs má reikna kostnað við ferðalög eftir gerð bíla og/eða skráningarnúmeri þeirra. Þar má jafnframt finna fleiri reiknivélar til þess að kanna mengunarflokk bíla, rekstrarkostnað og fleira.