Plastpokalaust Suðurland

 

Plast er einnota afurð sem lifir lengi og er orðin órjúfanlegur þáttur í daglegu lífi okkar. Mannkynið hefur farið offörum í notkun á þessari einnota, slitsterku vöru með þeim afleiðingum að hún hefur safnast saman í náttúru okkar og valdið mjög miklum skaða á umhverfinu.

Það tekur plastpoka um 100 – 500 ár  að brotna niður í örsmáar plastagnir sem menga vatn og vistkerfi og berast að auki inn í fæðukeðju mannsins.

Pokastöðvar

Plastpokalaust Suðurland er hluti af verkefni um sjálfbærni samfélaga. Það snýr m.a. að uppbyggingu Pokastöðva; sjálfsafgreiðslustöðva fyrir margnota poka.

Pokastöðvar eru snilldarsvar við „ég gleymdi taupokanum heima“ vandamálinu. Með pokastöðvum búum við til hringrás taupoka þar sem íbúar geta gengið í körfu með taupokum í verslunum á svæðinu og fengið að láni poka og síðan skilað þeim í næstu verslunarferð. Aðalatriðið er að mynda grasrótarhópa sem hittast reglulega og sjá um að viðhalda taupokunum og koma þeim í verslanir. Sveitarfélögin hafa syrkt slík verkefni og það er um að gera að hver hópur hafi samband við sitt sveitarfélag til samstarfs og styrkja.

Pokastöðvar hafa verið settar á fót bæði í Vestmannaeyjum og á Hornafirði og þar hafa íbúar verið duglegir að gefa boli og efni (sjá líka Boomerang Bags í Ástralíu!).

Plastpokalaust Suðurland er eitt af Áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands hjá Samtökum Sunnlenskra Sveitarfélaga (SASS).

 

Myndbandskynning um pokastöðvar

Skýrsla um Plastpokalaust Suðurland